Samráð

Stór hluti af vinnu við gerð skipulagsáætlana í Reykjavík er samráð við almenning og hagsmunaaðila.

Í samráði felst að taka sameiginlegar ákvarðanir og samræma aðgerðir. Sömuleiðis að kynna og veita fræðslu um skipulagsáætlanir og skipulagið. Hluti af því er að leita eftir skoðunum/viðhorfum ólíkra hagsmunaaðila, hlusta og rökræða og taka mið af skoðanaskiptum í vinnu við að þróa borgarskipulagið. Samráð er því skilgreint vinnuferli þar sem leitað er álits íbúa (framtíðarnotenda), hagsmunaaðila og opinberra umsagnaraðila. Þau gögn sem verða til hverju sinni í samráði eru notuð við frekari þróun og vinnslu skipulagsáætlana.

Sólveig Sigurðardóttir, arkitekt FAÍ, verkefnisstjóri hjá
skipulagsfulltrúa Reykjavíkur

Aðferðir og fasaskipt tímaáætlun 

Fyrsti fasi samráðs- og kynningar á áformum um uppbyggingu Ártúnshöfða og Elliðaárvoga fór fram samhliða samkeppni um skipulag svæðisins og á vinnslutíma rammaskipulagsins. Á því stigi var haft samráð við lóðarhafa, rekstraraðila á svæðinu og opinbera aðila.

Næstu fasar samráðsáætlunarinnar eru eftirfarandi:

Annar fasi – Forkynning á „vinnutillögum“

1. Opnun vefsvæðis þar sem helstu áherslur vinnutillagna eru kynntar

2. Fjölbreyttir rýnihópar fengnir til að ræða helstu áherslur og útfærslur
vinnutillagna

3. Netsamráð – borgarbúum gefið tækifæri til að koma á framfæri
hugmyndum um úrbætur og breytingar á vinnutillögum í gegnum
netsamráðskerfið Maptionnaire.

4. Úrvinnsla samráðs – samandregnar niðurstöður notaðar til að bæta
skipulagstillögurnar

Þriðji fasi – lögbundin kynning

1. Kynning á fullmótuðum tillögum – lögbundin kynning

2. Kynningarsíða uppfærð með tillögum

3. Sýning á tillögum og viðvera á svæðinu

4. Viðburðir: Streymisfundir, gönguferðir, fræðsluerindi o.s.frv.

5. Athugasemdir notaðar til að laga fullmótaðar tillögur

Hópavinna
Vinnuhópur borgarbúa að störfum í samráði.

Rýnihópar

Aldursskiptir rýnihópar úr Reykjavík og af höfuðborgarsvæðinu verða fengir til þess að fjalla um helstu skipulagshugmyndir og meta þær út frá daglegum athöfnum og þörfum. Reykjavíkurborg hefur áður notað rýnihópa í samráði með góðum árangri við gerð hverfisskipulags Reykjavíkur. Miðað er við að fá fyrirtæki með þekkingu og reynslu af rýnihópum til að sjá um framkvæmdina. Niðurstöður rýnihópa eru notaðar til að þróa skipulagstillögur fyrir svæði 1 og 2.

Netsamráð

Ætlun er að nota finnskt samáðskerfi sem heitir Maptionnaire og Reykjavíkurborg er að taka í notkun. Kerfið er samtengt kortagrunni og hægt er að útbúa spurningalista um hvað eina sem snertir skipulagið, s.s. samgöngumál, fyrirkomulag byggðar og almenningsrýma, verslun, þjónustu o.s.frv. Margar borgir víða um heim nota Maptionnaire til samráðs við íbúa um skipulagsmál og þjónustu sem borgirnar veita. Niðurstöðunum er safnað saman og notaðar til að gera lagfæringar á skipulagstillögum. Rétt er að geta þess að þetta netsamráð fylgir lögum um persónuvernd þar sem ekki verða til persónugreinanleg gögn.

Rýnihópur
Ráðgjafar og fulltrúar borgarinnar fylgjast með vinnu í rýnihóp, sem ræðir hugmyndir um borgarskipulag.

Úrvinnsla samráðs í öðrum fasa

Unnið verður með það efni sem verður til í fyrsta fasa samráðs, sem eru:

• Skriflegar athugasemdir frá almenningi og hagsmunaaðilum

• Niðurstöður rýnihópa – skýrsla frá framkvæmdaraðila

• Niðurstöður netsamráðs – tölfræðileg samantekt frá Maptionnaire

Allt efni er flokkað og greint og notað til að bæta og þróa skipulagstillögur áður en þær eru sendar í lögbundið kynningar- og samþykktarferli.

Þriðji fasi – lögbundin kynning

Skipulagstillögur settar í lögbundið kynningar- og samþykktarferli.

1. Kynning á fullmótuðum tillögum – lögbundin kynning

2. Kynningarsíða uppfærð með tillögum

3. Sýning á tillögum og viðvera á svæðinu

4. Viðburðir: Streymisfundir, gönguferðir, fræðsluerindi o.s.frv.

Nánar verður gerð grein fyrir þriðja fasa samráðs síðar.